Starfsemi okkar skiptist í tvö kjarnasvið; forvarnasvið og aðgerðasvið, og þrjár stoðeiningar; skrifstofu slökkviliðsstjóra, mannauð og almannatengsl og fjármál. Starfsfólk SHS er rúmlega 200 með víðtæka reynslu, þekkingu og þjálfun í að takast á við krefjandi og ólík verkefni.
Slökkviliðsstjóri er æðsti yfirmaður slökkviliðsins og stýrir daglegum rekstri í samræmi við starfs- og fjárhagsáætlun sem stjórn byggðasamlagsins hefur samþykkt.
Aðgerðasvið
Á aðgerðasviði starfa einstaklingar sem sinna slökkvistarfi og sjúkraflutningum. Auk þess eru slökkviliðsmenn í hlutastarfi á Kjalarnesi og samningur í gildi við björgunarsveitina Kjöl um að veita aðstoð ef þörf krefur.
Hlutverk aðgerðasviðs er að vernda líf, heilsu, umhverfi og eignir samfélagsins þegar hætta steðjar að.
Forvarnasvið
Forvarnasvið hefur það hlutverk að tryggja sem best öryggi íbúa gegn eldsvoða og afleiðingum hans. Á sviðinu starfa 16 manns. Sviðsstjóri forvarnasviðs heyrir beint undir slökkviliðsstjóra og ber ábyrgð á daglegum rekstri sviðsins og stefnumótun.
Stoðeiningar
Stoðeiningar sinna daglegri þjónustu við eigendur, stjórnendur og starfsfólk slökkviliðsins.
Helstu verkefni eru bókhald, launavinnsla, innheimta, eftirlit með innkaupum og upplýsingagjöf bæði innan SHS sem og út á við. Einnig fer fram ýmis greiningarvinna, tölfræði, hugbúnaðarþróun, tölvu- og tæknimál, gæðamál, skjalamál, innra eftirlit og áhættustýring.
Almannavarnanefnd höfuðborgarsvæðisins
Almannavarnanefnd höfuðborgarsvæðisins (AHS) var stofnuð í janúar 2004. Hlutverk slökkviliðsins í almannavarnakerfinu er fjölþætt. Því er ætlað að leiða stjórnun og útfærslu björgunaraðgerða ásamt því að taka þátt í aðgerðastjórn. Meðal verkefna liðsins er björgun úr rústum, slökkvistarf og aðhlynning og flutningur slasaðra. Til að sinna hlutverki sínu hefur slökkviliðið yfir að ráða góðum búnaði og sérþjálfuðum starfsmönnum. Slökkviliðsstjóri SHS er framkvæmdastjóri AHS.