Þegar talað er um eigið eldvarnaeftirlit í fyrirtækjum og stofnunum er átt við að eigandi og/eða forráðamaður axli þá ábyrgð sem lög og reglugerðir kveða á um og að eftirlit með brunavörnum bygginga sé skriflegt með gátlistum og að minnsta kosti mánaðarlegt. Að ýmsu er að hyggja þegar hefja á eigið eldvarnaeftirlit en hér á eftir verður fjallað um níu meginþætti sem tryggja þarf til þess að eldvarnaeftirlit geti skilað sem mestum árangri.
Intro texti minni
Hinir níu meginþættir eldvarnaeftirlits
Stefna
Eldvarnastefna er yfirlýsing og skuldbinding stjórnenda/eigenda um að halda eldvörnum í lagi. Stefnan setur rammann um eldvarnastarf fyrirtækisins og þarf því í grófum dráttum að lýsa eigin eldvarnaeftirliti fyrirtækisins, eða að minnsta kosti markmiðum þess og vísa þá skýrt í önnur skjöl um innihaldið.
Ábygrð
Samkvæmt reglugerð um eigið eldvarnaeftirlit í atvinnuhúsnæði er ábyrgð eigenda og forráðamanna skipt. Þegar eigandi og forráðamaður er ekki sami aðilinn þarf hlutverk hvers og eins að vera skýrt og samkvæmt skriflegum samningi sem gerður er á milli eiganda og forráðamanns fyrirtækis. Samkvæmt lögum um brunavarnir er eigandi húsnæðis ábyrgur fyrir því að það fullnægi kröfum um brunavarnir sem lög og reglugerðir kveða á um. Einnig geta ákvæði á samþykktum aðaluppdráttum og/eða brunahönnunargögnum sett kvaðir á eiganda og forráðamann umfram lög og reglugerðir.
Áhættustjórnun
Að vinna samkvæmt hugmyndafræði áhættustjórnunnar auðveldar að greina, meta og minnka eldhættu. Fyrir minni fyrirtæki með einfaldari eldhættur getur verið nóg að hafa þessa hugmyndafræði í huga í daglegri starfsemi og við reglubundið eftirlit með eldvörnum (með gátlistum).
Fyrir stærri fyrirtæki með flóknari áhættu þurfa að gera ítarlegar áhættugreiningar og vinna með formlegum hætti að því að halda áhættu undir viðunandi mörkum. Viðunandi er hér nokkuð afstætt hugtak því áhætta getur verið óhjákvæmilegur fylgifiskur vissrar starfsemi og getur þar með talist viðunandi. Áhætta er hins vegar aldrei viðunandi nema allar einfaldar aðgerðir til áhættuminnkunar hafi verið framkvæmdar og þeir sem taki áhættuna séu meðvitaðir um hana.
Í áhættugreiningarhlutanum er skoðað hvar og hvernig hætta er á að eldur kvikni og hverjar afleiðingarnar gætu orðið fyrir starfsemina,starfsmennina,viðskiptavinina og umhverfið. Í áhættuviðmiðshlutanum er leitast við að svara því hvort eldvarnir séu nægilega góðar með tilliti til niðurstaðna úr greiningarvinnunni. Í áhættuminnkun felast ákvarðanir um framkvæmd með beinum aðgerðum til að bæta eldvarnir, en líka stöðugt eftirlit með því að áhættumatið (áhættugreining og áhættuviðmið) lýsi veruleikanum hverju sinni. Nauðsynlegt getur verið að leita til þeirra sem hönnuðu bygginguna, forvarnasviðs slökkviliðs eða viðurkenndra fagaðila. Að sjálfsögðu þarf að kynna sér bygginguna sjálfa, innihald hennar, starfsemi og umhverfi.
Fræðsla og þjálfun
Upplýsingar um áhættuþætti verða að berast skilmerkilega til allra starfsmanna, sem og viðbragðs- og rýmingaráætlun. Þetta á einnig við um þá sem koma til vinnu vegna viðhalds í skamman tíma. Með nákvæmum upplýsingum um áhættuþætti takmörkum við hættuna á því að eldur geti kviknað.
Á hverjum vinnustað ætti að vera til viðbragðs- og rýmingaráætlun. Tilgangur hennar er að tryggja betur öryggi þeirra sem í byggingunni dvelja ef eldur kemur upp. Áætlunin byggir mikið á eigin áhættugreiningu og niðurstöðurnar ættu að vera aðgengilegar lykilstjórnendum og trúnaðarmönnum fyrirtækisins. Á þeim stöðum sem fáir vinna gæti áætlun verið A4 blað með einföldum leiðbeiningum. Í stærri og flóknari byggingum skal rýmingaráætlun vera vel skipulögð og æfð, þannig að allir þekki sitt hlutverk ef eldur kemur upp.
Byggingin og starfsemin
Meta þarf ástand bygginga með tilliti til eldvarna. Skoða þarf hvort byggingar séu í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti og leyfi hafi verið fengið fyrir breytingum, bæði á byggingum og starfsemi. Hægt er að fá afrit af samþykktum aðaluppdráttum hjá viðkomandi byggingarfulltrúa. Ef fyrirhugaðar eru breytingar á byggingu eða starfsemi getur verið nauðsynlegt að sækja um nýtt byggingarleyfi.
Eldvarnabúnaður
Nauðsynlegt er að hafa upplýsingar um virkni öryggiskerfa og hvernig hægt er að uppgötva bilanir í kerfunum og bregðast við þeim. Upplýsingarnar skulu settar fram á skýran og einfaldan hátt og lýsa almennri virkni öryggiskerfanna sem eru í byggingunni, hvernig best er að tryggja virkni þeirra og hvernig hægt er að átta sig á bilunum.
Oft er um að ræða miklar fjárfestingar sem mikilvægt er að þjóni tilgangi sínum þegar á þarf að halda og einnig þarf að tryggja að rekstrarkostnaði sé haldið í lágmarki. Þau öryggiskerfi sem gera þarf grein fyrir eru til dæmis brunaviðvörunarkerfi, vatnsúðakerfi, önnur slökkvikerfi, til dæmis í eldhúsum, og sjálfvirk reyklosunarkerfi. Lýsingar á kerfunum þurfa að vera greinargóðar og fyrir hendi þurfa að vera yfirlitsmyndir og teikningar af þeim ásamt upplýsingum um hvernig þau eiga að virka.
Skipulag og framkvæmd
Mikilvægt er að skipaður sé umsjónarmaður sem heldur utan um allt sem viðkemur eldvörnum fyrirtækisins eða stofnunarinnar. Umsjónarmaðurinn þarf að þekkja vel alla áhættuþætti í byggingunni, hverjir yrðu í hættu ef til eldsvoða kæmi og sjá um að starfsfólk fái tilskilda fræðslu og þjálfun.
Við mánaðarlega eldvarnaskoðun er nauðsynlegt að hafa viðeigandi gátlista og ljóst þarf að vera hver á að lagfæra það sem betur má fara og fylgja því eftir að lokið sé við úrbætur. Þó að tíðni gátlistaskoðana sé bara mánaðarlega þarf að hafa ofangreind atriði í huga alla daga til að eigið eldvarnaeftirlit skili sem bestum árangri og bæta tafarlaust úr því sem betur má fara. Þetta gildir sérstaklega um allt sem varðar örugga rýmingu.
Reglugerðir og hjálpargögn
Til að huga að eigin eldvarnaeftirliti þarf að fara eftir eftirfarandi reglugerð. Markmið eftirfarandi reglugerða er að vernda líf, heilsu, umhverfi og eignir með því að gera kröfur um fyrirbyggjandi brunavarnir, rekstur þeirra og tryggja fullnægjandi eldvarnareftirlit. Sjá eftirfarandi hlekki á þessar reglugerðir sem eru nú í gildi.
Viðbragðsáætlanir
Ásamt þessum atriðum þarf að hafa í huga og undirbúa viðbragðsáætlanir. Fyritæki og stofnanir eig að vera með viðbragðsáætlanir til að tryggja rétt viðbrögð og öryggi starfsmanna ef eldur verður laus. Sjá umfjöllun um viðbragðsáætlanir á eftirfarandi hlekk.
Intro texti minni