Ráðgjafateymi vegna áfalla starfar samkvæmt núgildandi samkomulagi um áfallahjálp í skipulagi almannavarna og stuðlar að því að besta þekking og úrlausnir á sviði áfallahjálpar séu til staðar í sveitarfélögunum á hverjum tíma.
Áfallahjálp er sérhæfð þjónusta við fólk sem verður fyrir áföllum og byggir á viðurkenndum aðferðum til að bregðast við bráðum áfallastreituviðbrögðum og beinist að því að draga úr uppnámi og stuðla þannig að betri aðlögun eftir áfallið.
Hugtakið áfall er hér notað yfir hættu sem ógnar lífi, limum eða viðurværi fólks sem og reynslu þeirra sem verða vitni að ofbeldi, líkamsáverkum eða dauða.
Meðal helstu verkefna Ráðgjafateymis vegna áfalla er að samhæfa og samræma útfærslu verkefna áfallahjálpar í sveitarfélögunum með því að vera í tengslum við yfirvöld og stofnanir sem tengjast áfallahjálp. Ráðgjafateymi er einnig ráðgefandi fyrir yfirvöld og stofnanir á viðkomandi svæði á öllum tímum. Ráðgjafateymi vinnur í nánu samstarfi við neyðarstjórnir sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu.