Menntun slökkviliðsmanna

Component: Intro Block (styling not included)

Slökkvistörf geta verið mjög krefjandi, bæði líkamlega og andlega. Verkefnin eru mjög misjöfn og af öllum stærðargráðum.
Menntun slökkviliðsmanna er því mjög fjölbreytt og yfirgripsmikil. Meðal annars er starfsfólk þjálfað í slökkvitækni, vatnsöflun, reykköfun og björgun mannslífa, eigna og umhverfis.

Grunnkrafa er iðmenntun, stúdentspróf eða að hafa lokið formlegri menntun sem telst sambærileg í tíma og umfangi.

Component: Accordions (styling not included)

Fornám

Title: Fornám Content:

Nýliði skal ljúka 120 kennslustunda fornámi á okkar vegum. Við hjá SHS berum sjálf ábyrgð á kennslu fornáms en fáum námslýsingu, kennsluefni og próf frá HMS. Að loknu námi skal nemandinn vera hæfur til að starfa sem byrjandi í atvinnuslökkviliði og fær skráningu sem annar reykkafari.

Title: Atvinnuslökkviliðsmaður Content:

Námið fyrir atvinnuslökkviliðsmenn er 540 kennslustundir og er í umsjá okkar hjá SHS í samstarfi við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.  Þátttakendur skulu hafa lokið fornámi fyrir slökkviliðsmenn og miðað skal við að þeir hafi starfað í atvinnuslökkviliði í sex mánuði. Námi skal lokið innan þriggja ára frá upphafi starfs. Að loknu námi hljóta menn löggildingu sem slökkviliðsmenn og skal nemandinn þá vera hæfur til almennra slökkvistarfa, reykköfunar, björgunarstarfa og viðbragða við mengunar- og eiturefnaslysum.

Title: Stjórnandi Content:

Nám fyrir stjórnendur innan atvinnuslökkviliða er 120 kennslustundir. Þátttakendur skulu hafa lokið námi sem atvinnuslökkviliðsmenn. Námið er ætlað þeim sem vinna við stjórnun innan atvinnuslökkviliða, svo sem slökkviliðsstjórar og varðstjórar. Að loknu námi skal nemandi vera hæfur til stjórnunar m.a. á útkallsstað og í starfsstöð, annast skýrslugerð, kennslu og þjálfun og hafa þekkingu á lögum er varða starfssvið hans.

Title: Endurmenntun atvinnuslökkviliðsmanna Content:

Starf slökkviliðsmanna er mjög fjölbreytt og endurspeglast það í endurmenntun þeirra. Sem dæmi um endurmenntun má nefna að fjöldi verklegra æfinga í reykköfun hjá slökkviliðum skal vera að lágmarki sex á hverju ári og tímalengd þeirra að lágmarki samtals 25 klst. Af sex æfingum skulu þrjár þeirra vera reykköfunaræfingar, þar af ein heit reykköfunaræfing. Þá skulu þrjár æfingar vera efnaköfunaræfingar, þar af ein með hættulegum efnum.

Sérhæfð námskeið

Component: Accordions (styling not included)

Sérhæfð námskeið

Title: Námskeið fyrir björgunarkafara Content:

Námskeið fyrir björgunarkafara er sérnámskeið sem er haldið á 2 til 3 ára fresti.

Inntökuskilyrði eru þau að umsækjandi þarf að vera orðinn atvinnuslökkviliðsmaður og búinn að ljúka neyðarflutninganámi, auk þess að hafa starfað í að minnsta kosti 3 ár.  Inntökuferlið er hlaupapróf og sundpróf þar sem umsækjandi þarf að geta klárað skriðsund, bringusund, björgunarsund, geta synt í kafi og geta leyst ýmsar þrautir í vatninu.  Ferlinu lýkur með viðtali.

Námskeiðið sjálft er oftast tvískipt, 4 vikur í senn, samtals 8 vikur.  Vegna krafna er námskeiðið kennt sem atvinnuköfunarnámskeið með leyfi frá Samgöngustofu. Nemar þurfa að ljúka ákveðnum fjölda kafana sem eru að heildartíma 1.800 mínutur.  Fyrri helmingur námskeiðsins er kenndur m.a. í sundlaug þar sem grunnatriði köfunar eru kennd, síðan er farið í sjó.  Seinni hluti námskeiðsins er nánast allur kenndur þannig að nemendur fá loft frá yfirborðinu og geta því verið lengur í hverri köfun. Að loknum fyrri hluta námskeiðsins eru tekin próf sem eru 9 talsins úr efni námskeiðsins. Samgöngustofa gefur út skírteini sem gilda í 5 ár.

Námskeiðið er kennt í samvinnu við embætti Ríkislögreglustjóra og Landhelgisgæslu Íslands, en kafarar frá Sérsveitinni og séraðgerðasviði LHG koma á námskeiðið.  Við höfum notið velvildar LHG hvað varðar skipakost en djúpkafanir niður á 50 metra dýpi hafa verið framkvæmdar frá varðskipum. Hver stofnun sendir sinn leiðbeinanda og skipta þeir með sér verkum í bóklegri kennslu.

Hlutverk björgunarkafara SHS er að geta sótt einstaklinga í sjó og vötn eftir slys og komið þeim sem fyrst undir hendur sjúkraflutningamanna. Eins hefur hópurinn tekið þátt í leitum og ýmsum verkefnum um landið allt.