Aldís Rún Lárusdóttir hefur verið ráðin sviðsstjóri forvarnasviðs, en hún hóf störf 1. september síðastliðinn.
Aldís er með doktorspróf í byggingarverkfræði frá Danmarks Tekniske Universitet með áherslu á brunaöryggi og rýmingarfræði, hún er einnig með B.Sc. og M.Sc. frá sama skóla. Aldís hefur starfað sem brunahönnuður hjá Eflu verkfræðistofu síðastliðin 9 ár að undanskildu einu ári, þar sem hún starfaði sem brunahönnuður í Danmörku.
„Við erum ánægð að fá Aldísi til liðs við okkur, hún er með yfirgripsmikla þekkingu og reynslu í brunahönnun. Verkefni forvarnasviðsins eru margþætt. Auk þess að sinna almennu eldvarnaeftirliti, má nefna samskipti við hönnuði mannvirkja og yfirferð teikninga með byggingafulltrúum sveitarfélagana. Umsagnir um tækifærisleyfi, öryggis- og lokaúttektir og öryggisvaktir. Forvarnasviðið skipuleggur fræðslu til grunn- og leikskóla, ásamt því að aðstoða og upplýsa íbúa og fyrirtæki á svæðinu, um ýmislegt sem varðar brunavarnir. Aldís er öflugur leiðtogi og mun leiða öflugan hóp starfsfólks á forvarnasviðinu í flóknum og krefjandi verkefnum“ segir Birgir Finnsson, starfandi slökkviliðsstjóri.
