Örugg búseta fyrir alla

Örugg búseta fyrir alla 

Í október sl. var samstarfsverkefni Húsnæðis og Mannvirkjastofnunar (HMS), ASÍ og Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins (SHS) ”Örugg búseta fyrir alla” ýtt úr vör, en markmiðið var að kortleggja búsetu í atvinnuhúsnæði. Verkefnið hófst með kortlagningu á höfuðborgarsvæðinu sem nú er lokið og eru ítarlegar niðurstöður að finna í skýrslu sem unnin var í kjölfarið.

Á blaðamannafundi sem haldinn var í Skógarhlíðinni í dag fóru Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri SHS, Regína Valdimarsdóttir, teymisstjóri hjá HMS, Drífa Snædal, forseti ASÍ og Dagur B. Eggertsson, formaður stjórnar SHS yfir helstu niðurstöður.  

Auk þess að kortleggja fjölda íbúa í atvinnuhúsnæði og ástand brunavarna var samsetning íbúanna einnig skoðuð m.t.t. móðurmáls, stöðu á vinnumarkaði og annarra þátta.  Niðurstöður sýna að búseta í atvinnuhúsnæði hefur dregist saman frá því að könnun SHS var gerð árið 2017. Þá var talið að á bilinu 3.500 og 4.000 einstaklingar byggju í atvinnuhúsnæði en í dag er áætlað að íbúarnir séu 1.868 talsins þar af 19 börn. Flestar þessara íbúða eru á svæðum sem eru í umbreytingarferli. Hafa ber í huga að áhrifaþættir í samfélaginu geta haft áhrif á fjölda þeirra sem búa í atvinnuhúsnæði.

Brunavarnir eru á heildina litið betri en gert var ráð fyrir en áætlað er að um helmingur íbúa búi við ásættanlegar brunavarnir. Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins  telur þó þörf á að skoða fjórðung húsnæðisins aftur á næstunni til að yfirfara brunavarnir betur. Tæplega 33% íbúa eru pólskumælandi þar næst koma Íslendingar, tæp 24%. Stór meirihluti, eða næstum 85% íbúa, er á vinnumarkaði. Vísbendingar eru um að Íslendingar eigi oftar atvinnuhúsnæðið sem þeir búa í en fólk af erlendum uppruna sé líklegra til að leigja.  

Hér má finna skýrsluna í heild sinni

Leave a comment

Your email address will not be published. Required fields are marked *