Árið 2021 í tölum

Component: Intro Block (styling not included)

Það verður að segjast eins og er að árið 2021 var ansi strembið hjá okkur eins og tölurnar sýna.  Á hverjum degi var nauðsynlegt að endurskipuleggja viðbragðið hjá okkur en ekki kom til þess að skerða þyrfti starfsemina.

SHS bætti við sig starfsfólki en það dugði skammt því verkefnum fjölgaði og fjölbreytileikinn var mikill því það hefur verið leitað til okkar til að koma að mörgu sem tengist Covid-19 faraldrinum sem endurspeglast ekki í þeim tölum sem fjallað er um hér fyrir neðan.

Þar má t.d. nefna skipulagningu bólusetninga og þátttaka í þeim, sýnataka fyrir Covid-19 göngudeild LSH, ýmis aðstoð fyrir viðkvæma þjónustu hjá sveitarfélögunum og framkvæmd bólusetninga á sérútbúnum bólusetningarbíl. Næg verkefni voru hjá Forvarnasviðinu okkar, t.d. kortlagning á búsetu í atvinnuhúsnæði og á árinu féll tímamótadómur varðandi ábyrgð húseigenda á eldvörnum.  Hér er ekki heldur fjallað um hlutverk almannavarnanefndar á höfuðborgarsvæðinu í faraldrinum en þar hefur verið unnið mikið starf varðandi aðstoð við sveitarfélögin, ekki síst skólayfirvöld t.d. vegna smitrakninga

Í upptalningu á tölum og greiningum gleymist oft að það eru margt starfsfólk sem stendur fyrir þessari þjónustu og hefur það sýnt ótrúlegt þrekvirki oft við krefjandi aðstæður. Því er ekki að neita að starfsfólk er farið að þreytast enda hefur það starfað undir stöðugu álagi vegna Covid-19 og sífellt vaxandi þörf eftir þjónustu SHS. Með ótrúlegri elju og útsjónarsemi hefur starfsfólk haldið starfseminni gangandi. Þau hafa fært ýmsar fórnir og lagt margt til hliðar í sínu daglega lífi til að halda starfseminni á floti eins og margir aðrir sem starfa í framlínu í heilbrigðisgeiranum.

Sjúkraflutningar

Heildarboðanir á sjúkrabíla jukust um 27,8% milli áranna 2020 og 2021, ef Covid-19 flutningar eru teknir úr þessum tölum þá er aukningin 19% milli ára. Covid-19 flutningar voru 2.152 árið 2020 en 5.470 árið 2021.

Hér að neðan má sjá fjölda boðana og sjúkraflutninga árið 2020 og 2021. Boðanir eru fjöldi sjúkrabifreiða sem eru kallaðir út, ef 3 sjúkrabifreiðar eru kallaðar í sama útkallið flokkast það sem 3 boðanir. Sjúkraflutningar eru þegar sjúklingur er fluttur.

Útköll eru flokkuð í F1-F4 eftir alvarleika, í F1 og F2 eru forgangsboðun þ.e. tafarlaust viðbragð vegna alvarleika útkallsins og ekið á forgangi.

Útköll slökkvi- og björgunarstarfa

Útköll á dælubíla jukust um 5,5% milli ára og voru 1.341 í lok árs.

Met féllu reglulega allt árið

Árið 2021 voru 274 dagar þar sem boðanir fóru yfir 100 á sólarhring en árið 2020 voru þetta 101 dagar. Metið í dag er síðan 6. ágúst þegar farið var í 181 boðun á einum sólarhring eða rúmlega 7 á hverjum klukkutíma. Á meðfylgjandi töflu sést hvernig þróunin hefur verið síðan 2015 þegar 94% allra boðana voru undir 100 á dag en árið 2021 voru einungis 25% flutninga sem voru undir 100 boðunum. Af þeim 12 sólarhringum sem voru yfir 160 boðanir voru 11 þeirra á árinu 2021.

Aldurssamsetning sjúklinga

Eins og fram hefur komið meðal annars í mannfjöldaspá Hagstofunnar þá er aldurssamsetning þjóðarinnar að hækka og fjöldi þeirra sem eru 67 og eldri er sífellt að aukast. Þessi þróun endurspeglast í flutningum hjá okkur. Á meðfylgjandi línuriti má sjá hversu mikil fjölgunin hefur verið í aldurshópnum 70 ára og eldri milli áranna 2020 og 2021. Það er nauðsynlegt að hugað sé að þessari staðreynd því þörfin eftir okkar þjónustu eykst með hækkandi aldri og við verðum að verið tilbúin að mæta henni.

Þegar Covid-19 boðunum er skipt eftir aldri endurspeglast munurinn í bylgjunum árið 2020 þegar eldra fólkið var að veikjast meira en í fyrra var það yngra fólkið.

Leave a comment

Your email address will not be published. Required fields are marked *